Elstu nemendur Strandheima fengu boð um að taka þátt í Barnabæ sem er þemaverkefni hjá Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, daganna 30.5-2.6.
Þá daga er brugðið út af venjulegri skólastarfsemi og er skólanum breytt í svokallað fríríki þar sem nemendur og kennarar reka vinnustaði í fjóra daga og er sá fjórði undirlagður í uppskeruhátíð þar sem nemendur fá tækifæri til að kynna og selja afrakstur vinnu sinnar.
Dæmi um vinnustaði sem settir voru upp í ár vour bakarí, steypustöð, blómabúð, bílaþvottastöð, skartgripagerð og fjölmiðill.
Barnabær er með sinn eigin gjaldmiðil, besóa (skammstöfun skólans er BES) og vinna nemendur sér inn besóa þá daga sem þeir eru í vinnu. Þeim gefst svo kostur á að nýta besóana sína á uppskeruhátíðinni til að kaupa varning og þjónusta af vinnustöðum skólans.
Elstu nemendur Strandheima unnu á vinnustað sem annaðist skreytingu á steinum. Fyrsta daginn fóru þau út í Stokkseyrarfjöru og týndu steina, þrifu þá og lögðu til þerris. Næstu tvo daga á eftir sáu þau um að mála þá og skreyta og koma á fót steinaverslun fyrir sjálfa hátíðina á lokadeginum. Á hátíðinni skiptu þau svo vöktum á milli sín í versluninni á milli þess sem þau fengu tækifæri til að vappa á milli afþreyinga og verslanna.
Hægt er að sjá nánari kynningu á Barnabæ í innslagi hjá Sumarlandanum hér.