Börnin í Strandheimum áttu dásamlegan tíma í útiverunni í dag. Þau nutu sín í algjöru flæði á meðan mild rigningin féll til jarðar. Það er gaman að nýta regnvatnið í leik; hoppa í pollum, búa til drullumall, sandkastala og fiskabúr, þrífa hús og glugga og bara SULLA! 🙂 Finna hvernig sporin þyngjast við það að stíga ofan í blauta moldina, heyra hljóðið í regndropunum þegar þeir lenda á regnfötunum, finna fyrir þeim á húðinni og jafnvel fanga þá með tungunni. Já, veðrið í dag var svo sannarlega veisla fyrir skynfærin og voru mörg hver sem höfðu varla tíma til að fara inn í hádegismat, svo upptekin voru þau við leik og störf! 🙂
Eflaust fer svolítið af blautum fatnaði með heim í dag og minnum við foreldra á að fara yfir aukafötin í hólfinu og taka útifötin með heim.
Skapið góða helgi! 🙂
Starfsfólk Strandheima