Vinátta í nærumhverfinu; fréttir af þróunarverkefni Strandheima skólaárið ’22-’23

Í þessari færslu verður fjallað um þróunarverkefni Strandheima, Vinátta í nærumhverfinu, og hvernig til hefur tekist að framfylgja markmiðum þess fram til þessa. 

 

Tilgangur og markmið

Við upphaf verkefnisins gaf leikskólinn út greinagerð sem lýsir verkefninu ítarlega – tilgangi þess og markmiðum – og geta áhugasamir nálgast hana hér.

Í stuttu máli snýst verkefnið um að stuðla að tækifærum til að efla tengsl á milli elstu nemenda leikskólans þvert á starfsstöðvar og veita þeim möguleika á að auka þekkingu sína á nærumhverfi og sögu þorpanna, Eyrarbakka og Stokkseyri.  

Verkefnið hefur gengið vonum framar og hefur nemendum tekist að mynda góð vináttutengsl sín á milli. Þau lýsa tilhlökkun sinni fyrir hvern hitting og ánægjunni sem þau upplifa meðan á honum stendur. Á milli þeirra ríkir gagnkvæm virðing og saman skapa þau góða stemningu í gegnum leik og önnur verkefni.  

Þar sem leikskólinn er Skóli á grænni grein (grænfána leikskóli) og elsti árgangur hverju sinni situr í umhverfisnefnd leikskólans, þá höfum við nýtt tækifærið og komið fyrir umhverfisnefndarfundum inn í dagskipulag verkefnisins. Þemun sem við höfum tileinkað okkur í ár eru átthagar og lýðheilsa og rímar það vel við sjálft þróunarverkefnið. Partur af því er að kynnast nærumhverfi sínu betur og vera í samstarfi við nærsamfélagið.  

 

Gönguferðir og heimsóknir

Það er sannarlega mikið framboð af náttúrusvæðum, menningu og annarri starfsemi í þorpunum og hafa móttökurnar verið góðar og hlýjar hjá þeim aðilum sem við höfum leitast eftir að vera í samstarfi við. Þegar þetta er ritað hefur nemendahópurinn okkar farið í gönguferðir til eftirtalinna aðila/staða: 

Á Eyrarbakka 

  • Byggðasafns Árnesinga þar sem safnvörðurinn Linda sýndi okkur hina ýmsu muni sem þar er að finna. 
  • Hlöðvers dúfnabónda, en hann á fjölmargar dúfur sem við fengum að skoða og halda á, auk þess sem Hlöðver lét þær sýna listir sínar í háloftunum.  
  • Húsið, þar sem hópnum var boðið í Lubbastund ásamt sýningarferð.  
  • Dvalarheimilisins Sólvalla þar sem nemendur glöddu íbúa með söng sínum. 
  • Sjóminjasafnsins þar sem við fengum að kynnast sögu sjávar og sveita.
  • Bakkastofu, heimili tónlistarmannsins Valgeirs Guðjónssonar og Ástu Kristínar Ragnarsdóttur, konu hans. Þar var slegið á létta strengi og spilaði Valgeir undir nokkur vel valin lög á meðan nemendur sungu.

Á Stokkseyri 

  • Orgelsmiðju Björgvins Tómassonar þar sem Björgvin bauð upp á barnvæna og skemmtilega kynningu á starfsemi sinni og kom þar m.a. lítil mús við sögu. 
  • Þuríðarbúð, en óhætt er að segja að innlit inn í hana vakti mismikla lukku hjá nemendum þó svo að garðurinn í kring hafi flestum þótt skemmtilegur.  
  • Í þau skipti sem verkefnið er á Stokkseyri heimsækir hópurinn Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES) þar sem þau hafa fengið að taka þátt í samverstund, tónmenntartíma og útiveru ásamt nemendum og kennurum 1. bekkjar.  

 

Hvað er svo framundan? 

  • Í apríl munum við heimsækja Veiðisafnið á Stokkseyri auk þess sem við munum eiga samverustund með nemendum 1. bekkjar þar sem leikir og tónlist halda áfram að koma við sögu. 
  • Þróunarverkefnið endar svo í maí í Hallskoti þar sem foreldrum verður boðin þátttaka part úr degi.

Auk þróunarverkefnisins hefur hópurinn sameinast í tvígang á þessu skólaári þar sem BES hefur boðið þeim að taka þátt í íþróttatímum á Stað á Eyrarbakka og munu þau einnig sameinast í vorskóla BES og Barnabæjarhátíð BES að vori sem hluti af verkefninu Brúum bilið milli skólastiga. 

Sameiginleg útskrift og útskriftarferð verða svo í maí samkvæmt skóladagatali. 

Við sem stöndum næst verkefninu finnum að það er að skila tilskyldum markmiðum og bindum við miklar vonir við að ávöxtur þess skili sér í góðu framtíðarveganesti fyrir nemendur okkar. 

 

Þakkir til nærsamfélagsins

Að lokum viljum við nota tækifærið og þakka öllum þeim aðilum sem hafa tekið á móti okkur kærlega fyrir góðar og skemmtilegar móttökur.

Einnig viljum við koma á framfæri þökkum til foreldra fyrir að hafa tekið vel í verkefnið í upphafi og fyrir þeirra þátt í verkefninu – án þeirra samstarfs hefði verkefnið ekki orðið að veruleika.  

 

Hlýjar kveðjur,

starfsfólk Strandheima