Veðrið hefur leikið við okkur hér á Eyrarbakka og Stokkseyri undanfarið og hafa nemendur okkar og starfsfólk notið góðs af í útveru og í útinámi.
Við erum þeirrar gæfu aðnjótandi að leikskólinn okkar er staðsettur í fallegum sjávarþorpum og er fjara í hæfilegri göngufjarlægð frá starfstöðvum leikskólans.
Það er dásamlegt að hafa aðgang að svo stórum sandkassa! 🙂 Það skemmir heldur ekki fyrir að fá að heyra fuglasöng og öldunið, finna lyktina af hafinu, sjá litadýrð skeljanna og fá að snerta á alls kyns fyrirbærum; stórum og smáum steinum, blautum og þurrum sandi, kuðungum og skeljum með allavega formum, fjölbreyttu dýra- og plöntulífríki og svo lengi mætti telja. Ímyndunarafl og sköpunarkraftur barnanna fær notið sín í víðáttumiklu umhverfinu og nær leikurinn nýjum hæðum. Við það að anda að sér fersku sjáfarloftinu, fá D-vítamín frá sólu og leyfa hjartanu að slá örar í göngu og leik koma börnin endurnærð til baka í leikskólann.
Já, fjaran er svo sannarelga frábær staður til að stunda heilsueflingu og njóta samverustunda.
Við hvetjum ykkur til þess að prófa!
Góða helgi! 🙂