170 ára afmæli Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri

Laugardaginn 22. október sl. hélt Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri upp á 170 ára afmæli skólans.

Afmælishátíðin var vel sótt og var dagskrá hennar einstaklega vel heppnuð.

Nemendur Strandheima voru með söngatriði á hátíðinni þar sem þau sungu tvö lög af mikilli innlifun og við mikinn fögnuð viðstaddra.

Lögin sem börnin sungu voru Umhverfis- og heilsusáttmáli Strandheima og Vinur minn, en bæði lögin eru með fallegan boðskap sem skilaði sér svo sannarlega í gegnum kröftugan söng barnanna. Áður en börnin hófu söng sinn hélt Tinna, aðstoðarleikskólastjóri, stutt ávarp fyrir hönd Strandheima:

Kæru gestir,

Innilega til hamingju með þennan merka dag í sögu Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Við í leikskólanum Strandheimum finnum ávallt fyrir hlýju og velvild í okkar garð þegar Barnaskólinn á í hlut og erum við afskaplega stolt og þakklát fyrir það góða samstarf sem skapast hefur á milli skólastiganna undanfarin ár. 

Þorpin, Eyrarbakki og Stokkseyri, bjóða upp á mörg tækifæri þegar kemur að menningu, náttúru og umhverfi og eru það mikil forréttindi að hér fái nemendur, hvort sem er í leik- eða grunnskóla, að njóta skólagöngu undir góðum verndarvæng lærdómssamfélagsins sem hér er starfandi.

Megi það halda áfram að vaxa og dafna um ókomna tíð. 

 

Það verður ýmislegt í boði þessa vikuna á vegum Barnaskólans og má þar m.a. nefna íþróttaþrautabraut á Stað nk. miðvikudag kl.12:35-13:55.

Þar verður elstu nemendum Strandheima boðið að taka þátt og munu nemendur okkar í Æskukoti ferðast, ásamt kennurum sínum, með skólabíl Barnaskólans fram og til baka.

Hægt er að sjá viðburðadagskrá Barnaskólans í tilefni afmælisins inni á heimasíðu þeirra: Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri (barnaskolinn.is)

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur hátíðina.