Nú á dögunum hélt foreldrafélag Strandheima stórglæsilegar vorhátíðir fyrir börnin í Brimveri og Æskukoti.
Æskukot 16. júní
Vorhátíðin hófst á því að Ósk Kristinsdóttir, fulltrúi Landverndar, ávarpaði gesti um leið og hún afhenti leikskólanum Grænfánann sem viðurkenningu fyrir vel unnin störf í menntun til sjálfbærni. Að því loknu dró Birna leikskólastjóri fánann að húni og sungu börnin Umhverfissáttmála Strandheima á meðan.
Því næst tók við hoppukastalagleði, sápukúlufjör og veitingar í boði matráðarins okkar, hennar Elfu Söndru. Einnig fengum við heimsókn frá hænuungum og heimalningi sem börnunum þótti forvitnilegt og gaman að heilsa uppá.
Öllum að óvörum mætti svo Lína Langsokkur á svæðið og skemmti börnunum með bröndurum, leik og söng.





Brimver 24. júní
Vorhátíðin hófst á opnun myndlistarsýningar í sal Brimvers þar sem listaverk barnanna frá liðnum vetri eru til sýnis fyrir gesti og gangandi, en sýningin verður opin eitthvað fram í næstu viku.
Um 10 leytið kom svo Lína Langsokkur óvænt í heimsókn og skemmti börnunum með bröndurum, leik og söng.
Börnin fengu svo andlindsmálningu síðar um daginn og tóku fallega skreytt börn á móti 6. Grænfánanum við formlega opnun hátíðarinnar. Á meðan Birna leikskólastjóri dró fánann að húni sungu börnin Umhverfissáttmála Strandheima.
Því næst tók við hoppukastalagleði, sápukúlufjör og veitingar í boði matráðarins okkar, hennar Möggu.





Umhverfissáttmáli Strandheima
Stefnan hér í leikskólanum er sem segir hér;
Göngum vel um náttúruna, virðum bæði tré og runna
svo dýr og börn á jörðu geta lengi leikið sér.
Matur, hreyfing skiptir máli fyrir okkur öll.
Hoppum hlaupum klifrum, borðum matinn biðjum,
að gæfa og gleði fylgi okkur, framtíðin er björt.
Texti: Ásgerður Tinna Jónsdóttir
Lag: Gamli Nói
Vorhátíðarnar voru frábær upplifun hvor um sig og kann leikskólinn foreldrafélaginu bestu þakkir fyrir flott og skemmtilegt skipulag, sem og foreldrum og starfsfólki fyrir þeirra framlag! 🙂