Vinátta í nærumhverfinu – lokadagur í Hallskoti

Fimmtudaginn 22. júní varði elsti árgangur Strandheima heilum degi á skógræktar- og útivistarsvæðinu Hallskoti sem staðsett er rétt fyrir utan Eyrarbakka.

Tilefnið var lokadagur þróunarverkefnisins Vinátta í nærumhverfinu sem leikskólinn hefur staðið fyrir skólaárið ’22-’23 með það að markmiði að efla tengsl elstu nemenda og gefa þeim færi á að kynnast nærumhverfi sínu á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Hópurinn var heppinn með veður og nýtti daginn vel í leik og útinám. Hús voru búin til úr stórum greinum og voru minni greinar tálgaðar og nýttar sem grillspjót. Börnin grilluðu m.a. brauð sem þau vöfðu utan um grillspjótin sín og fengu sum einnig tækifæri til að skera niður rabbarbara.  Blómakransar voru útbúnir sem fengu það hlutverk að skreyta lítil höfuð sem í forvitni sinni leituðu að fjölbreyttri flóru skordýra. Drumbum var breytt í trommur og ómaði söngur barnanna við flottan trommusláttinn.

Kennarar höfðu meðferðis tjald auk nokkurra hengirúma sem útbúin eru úr gömlum grænfánum. Viðveran í skóginum bauð því upp á fjölbreytta afþreyingu og er óhætt að segja að börn sem fullorðnir undu sér vel.

Leikskólinn þakkar Skógræktarfélagi Eyrarbakka, forsvarsaðilum Hallskots, kærlega fyrir lánið á svæðinu.

Til gamans má geta að Skógræktarfélag Eyrarbakka styrkir leikskólann ár hvert með því að gefa útskriftarnemum plöntur í útskriftargjöf.

Grillað brauð að hætti barnanna í Strandheimum

Það er mat kennara við leikskólann að þróunarverkefnið hafi tekist vonum framar og er stefnt að því að gefa því fastann sess í starfi skólans næstu árin. Nemendur hafa þróað með sér vináttubönd sem munu styrkja þau enn frekar við upphaf grunnskólagöngunnar þar sem þau verða öll saman í bekk. Hópurinn hefur fengið að heimsækja fjölbreytta staði í þorpunum sem eykur víðsýni þeirra og öryggi í nærumhverfinu. Eins hefur verkefnið stuðlað að auknum tengslum milli starfsfólks skólans sem annars vinnur í sitthvorri starfsstöðinni.

Leikskólinn þakkar eftirtöldum aðilum fyrir frábært samstarf tengt verkefninu á liðnu skólaári og fyrir hlýju og velvild í garð nemenda og starfsfólks:

  • Foreldrar elstu nemenda Strandheima
  • Stjórnendur BES ásamt umjónarkennara 1. bekkjar og tónmenntakennara
  • Orgelsmiðja Björgvins Tómassonar á Stokkseyri
  • Hlöðver Þorsteinsson, dúfnabóndi og kona hans Þóru Ósk Guðjónsdóttur
  • Bakkastofa, í eigu hjónanna Valgeirs Guðjónssonar og Ástu Kristínar Ragnarsdóttur
  • Byggðasafn Árnesinga, Eyrarbakka
    • Sjóminjasafnið
    • Húsið
    • Geymslan (Alpan húsið)
  • Dvalarheimilið Sólvellir á Eyrarbakka
  • Veiðisafnið á Stokkseyri
  • Skógræktarfélag Eyrarbakka með aðsetur í Hallskoti