Útskrift elstu nemenda

Útskrift Strandheima var haldin miðvikudaginn 24. maí sl. og var hún haldin í tvennu lagi þar sem starfsstöðvarnar héldu sitthvora athöfnina fyrir nemendur sína. Útskriftarnemendur fluttu nokkur lög fyrir fullan sal áhrofenda við undirleik Valgeirs Guðjónssonar, tónlistarmanns. Börnin kynntust Valgeiri og Ástu konu hans í þróunarverkefninu Vinátta í nærumhverfinu í vor þar sem þau fengu að heimsækja þau í Bakkastofu, en eitt af lögunum sem þau sungu í útskriftinni var lag Valgeirs, Vikivaki.

Foreldrafélagið gaf útskriftarnemendum falleg handklæði í kveðjuskyni sem merkt voru með nafni hvers og eins. Handklæðin munu eflaust koma að góðum notum þegar börnin hefja grunnskólagöngu sína í haust þar sem sundkennsla er partur af námskránni. Leikskólinn færði þeim plöntur sem styrktar voru af Skógræktarfélagi Eyrarbakka, rós og viðurkenningarskjal.

Daginn eftir útskrift fóru nemendur í útskriftarferð ásamt kennurum sínum til Reykjavíkur. Heimsóttu þau Hvalasafnið, Náttúrufræðistofu Kópavogs, pizzastað og Heiðmörk.

Leikskólinn þakkar nemendum og foreldrum hjartanlega fyrir samfylgdina í gegnum árin og óskar öllum alls hins besta um ókomna tíð.