Samstarf heimilis og skóla
Við upphaf leikskólagöngunnar er hornsteinn lagður að samstarfi foreldra og leikskóla. Foreldrum gefst tækifæri til að kynnast starfsháttum, hugmyndafræði og námskrá leikskólans. Þeir miðla upplýsingum um barnið, aðstæður þess, reynslu og áhugasvið og fá til baka upplýsingar frá leikskólanum. Á þessum gagnkvæmu upplýsingum byggjast fyrstu skref barnsins í leikskólanum. Framlag foreldra er mikils metið og litið er á þá sem mikilvæga samstarfsaðila.
Aðalmarkmið foreldrasamstarfsins er að eiga traust og opin samskipti við alla foreldra, að foreldrar finni að þeir eru alltaf velkomnir með börnin sín í leikskólann og geti talað við starfsfólk um málefni barnsins og það sem getur haft áhrif á líðan þess. Einnig að veita foreldrum upplýsingar um þroska barnsins og stöðu þess í leikskólanum. Lögð er áhersla á trúnað og traust og opin dagleg samskipti við alla foreldra.
Markmið og áherslur Strandheima eru:
- Að huga að velferð barnanna og hafa hana að leiðarljósi
- Að eiga góð samskipti og samvinnu við foreldra
- Að upplýsingaflæði milli skóla og heimila sé gott
- Að skapa traust milli foreldra og skóla
- Að stuðla að þátttöku foreldra í skólastarfinu
Leiðir að markmiðum eru bæði í gegnum dagleg- og formleg samskipti.
Dagleg samskipti við foreldra eru dýrmæt í starfi skólans. Dagleg samskipti eiga að einkennast af ánægju og vilja til samvinnu og samstarfs. Tíðust samskipti fara fram þegar foreldrar koma með börn sín og sækja þau í leikskólann, mikilvægt er að sá tími sé nýttur til samskipta. Í daglegum samskiptum þegar komið er með barnið og það sótt, er lögð áhersla á að taka vel á móti því og foreldrum og kveðja í lok dags.
- Við bjóðum góðan daginn alla daga
- Heilsum barni með nafni
- Í lok dags er barnið kvatt og þakkað fyrir daginn
- Foreldrum stendur ávallt til boða að fá viðtalstíma við leikskólastjóra, sérkennslustjóra og deildarstjóra þegar þeir óska eftir því
Formleg samskipti:
- Uppeldisnámskeið sem upphaf aðlögunar Uppeldi sem virkar - færni til framtíðar fyrir foreldra nýrra barna
- Foreldraviðtal við upphaf leikskóladvalar (fyrra viðtal skólaársins)
- Foreldraviðtöl eru tvisvar á skólaárinu, á haustönn og vorönn.
- Fréttir/tilkynningar eru ýmist settar á heimasíðu leikskólans, á tilkynningartöflur deilda og/eða sendar með tölvupósti
- Tölvusamskipti / samskipti í gegnum samskiptaforritið Völu
- Opið hús – fjölskyldukaffi – tengt þemastarfi – myndlistasýning
- Jólaball – haldið á báðum starfsstöðvum (ekki er gert ráð fyrir gestum fyrir utan heimsókn jólasveina)
- Sumarhátíð
- Útskrift elstu barna
- Foreldrafélag leikskólans allir foreldrar eru í foreldrafélagi leikskólans. Foreldrafélagið starfar sem traustur bakhjarl leikskólans, markmið þess er að efla samstarf heimila og leikskóla. Foreldrafélagið hefur staðið að aðventuhátíðum með jólaföndri, vasaljósaferðum, páskaeggjaleit, gefið nemendum útskriftargjafir og boðið upp á leiksýningar. Upplýsingar um hlutverk foreldrafélags og verkefni er að finna á heimasíðu leikskólans. Aðalfundur er haldin í september ár hvert.
- Foreldraráð er lögboðinn vettvangur foreldra til að koma skoðunum sínum á framfæri við skólastjórnendur varðandi innihald, áherslur og skipulag skólastarfsins. Stjórn foreldrafélagsins myndar foreldraráð leikskólans. Góð samvinna er með foreldraráðinu sem fundar reglulega yfir skólaárið með leikskólastjóra. Foreldraráð hefur sett sér starfsreglur sem birtar eru á heimasíðu leikskólans.