Dagur íslenskrar tungu

Málhundurinn Lubbi átti afmæli 16. nóvember sl., á degi íslenskrar tungu.

Að því tilefni var haldin afmælisveisla honum til heiðurs og fékk Lubbi afmæliskórónu, -rakettur og -söng frá nemendum Strandheima.

Það er greinilegt að Lubbi er í miklu uppáhaldi hjá hverju og einu þeirra og ríkti mikil gleði við veisluhöldin.

Leikskólinn hefur notað kennsluefnið Lubbi finnur málbein markvisst í starfi sínu í þó nokkur ár og gefst öllum nemendum færi á að taka þátt í svo kölluðum Lubbastundum, þar sem áhersla er lögð á æfingu í íslensku málhljóðunum í gegnum orðaleiki og söng.

 

Heimsókn frá 7. bekkjar nemendum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri

Það var margt annað skemmtilegt um að vera þennan dag, en líkt og hefðin segir til um fengum við heimsókn frá nemendum 7. bekkjar BES sem lásu upp úr barnabókmenntum fyrir alla nemendur leikskólans. Dagur íslenskrar tungu markar upphaf á undirbúningi 7. bekkjar fyrir Stóru upplestrarkeppnina sem haldin er á landsvísu í mars ár hvert. Nemendur Strandheima höfðu mikla ánægju af að hitta og hlusta á grunnskólanemendurna lesa sögur.

 

Jónas Hallgrímsson

Í samverustund fengu nemendur á Bátakletti einnig fræðslu um af hverju Íslendingar halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan og er það til að minna á mikilvægi íslenska tungumálsins, gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Dagurinn er haldinn á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, skálds og náttúrufræðings, en í ár eru 215 ár frá fæðingardegi hans. Jónas Hallgrímsson samdi fjölmörg kvæði og sögur og hlustuðu börnin á kvæði hans Buxur, vesti, brók og skó – YouTube. Hann fann upp á mörgum nýyrðum sem eru notuð enn þann dag í dag og má þar m.a. nefna: sjónauki, sporbaugur, tunglmyrkvi, láréttur, ljóshraði, hryggdýr, skjaldbaka, skötuselur, fýll, haförn, páfagaukur, mörgæs, meltingarfæri, æðakerfi, lambasteik, baksund og léttklæddur.