Útinám
Útinám í Strandheimum
Í Strandheimum er starfandi verkefnastjóri sem hefur það að markmiði að helstu áhersluþáttum Heilsueflandi leikskóla og Skóla á grænni grein sé framfylgt með markvissum hætti. Partur af af því er útinám og hreyfing sem allir nemendur leikskólans eru þátttakendur í og heimsækir verkefnastjórinn hverja deild einu sinni í viku:
- Mánudagar – Fiskaklettur
- Þriðjudagar – Bátaklettur
- Miðvikudagar – Kötlusteinn
- Fimmtudagar – Merkisteinn
Starfsfólk leikskólans er einnig duglegt að fara í gönguferðir með nemendahópa sína í nánasta umhverfi leikskólans, þar sem markmiðið er að auka öryggi barnanna fyrir umhverfi sínu og stuðla að geðrækt með því að njóta hreyfingar og útiveru.
Nánar um útinámið
Álfaskógur á Eyrarbakka og Vinalundur á Stokkseyri
Útinám barnanna fer fram í formi göngutúra í átt að kunnulegu umhverfi og hafa starfsstöðvarnar fundið sér griðarstað til útináms í báðum þorpum. Börnin á Eyrarbakka ganga í Álfaskóg og börnin á Stokkseyri í Vinalund. Svæðin eru staðsett hjá frisbigólfvöllum þorpanna og tekur gönguleiðin í átt að þeim um 10-15 mínútur. Yngstu börnin fara í styttri gönguferðir í nánasta umhverfi starfsstöðvanna og munu svo með tímanum fara í lengri ferðir í samræmi við getu þeirra og þroska.
Myndir úr Álfaskógi á Eyrarbakka
Markmið ferðanna er að efla alhliða þroska barnanna og gefa þeim færi á að gleyma sér í leik úti í náttúrunni. Þannig öðlast þau flæðisástand sem stuðlar að örvun skynfæranna og styrkir um leið andlegan, félagslegan, líkamlegan og vitsmunalegan þroska einstaklingsins. Frjáls leikur í náttúrunni hefur því mikið vægi sem og könnun umhverfisins; við leitum að sniglum og pöddum, skoðum blóm, tré og klifrum jafnvel í trjám. Börnin ganga á ójöfnu undirlagi, æfa sig að ganga í röð og hlusta eftir fyrirmælum. Samskipti þeirra á milli öðlast aðra vídd, sem og sýn þeirra á nánasta umhverfi sem gerir það að verkum að sjálfsmynd þeirra og -öryggi styrkist og vináttan fær aukið rými til að blómstra.
Myndir úr Vinalundi á Stokkseyri
Hjálpsemi og vinátta er mikið til umræðu í gönguferðunum og eru börnin hvött til þess að styðja hvort annað ef einhver lendir í vandræðum. Sem dæmi ef einhver dettur, þá eru þau hvött til þess að spyrja; Er allt í lagi? Viltu aðstoð? Viltu knús? Þannig fá þau þjálfun í samkennd og að setja sig í spor annarra.
Börnin taka með sér vatnsflöskur í bakpokum í ferðirnar og hafa kennarar meðferðis segl, sem nýtist sem skjól/tjald, og hengirúm sem Eva hefur útbúið úr gömlum grænfánum. Stundum er nesti tekið með ef um lengri ferðir er að ræða. Fyrir alls ekki löngu fékk leikskólinn bálpönnu að gjöf og mun hún koma að góðu gagni í göngutúrum framtíðarinnar og aldrei að vita nema útbúið verði kakó eða grillaðar verði samlokur.
Fjöruferðir
Við erum þeirrar gæfu aðnjótandi að leikskólinn okkar er staðsettur í fallegum sjávarþorpum og er fjara í hæfilegri göngufjarlægð frá starfstöðvum leikskólans.
Það er dásamlegt að hafa aðgang að svo stórum sandkassa! Það skemmir heldur ekki fyrir að fá að heyra fuglasöng og öldunið, finna lyktina af hafinu, sjá litadýrð skeljanna og fá að snerta á alls kyns fyrirbærum; stórum og smáum steinum, blautum og þurrum sandi, kuðungum og skeljum með allavega formum, fjölbreyttu dýra- og plöntulífríki og svo lengi mætti telja. Ímyndunarafl og sköpunarkraftur barnanna fær notið sín í víðáttumiklu umhverfinu og nær leikurinn nýjum hæðum. Við það að anda að sér fersku sjáfarloftinu, fá D-vítamín frá sólu og leyfa hjartanu að slá örar í göngu og leik koma börnin endurnærð til baka í leikskólann.
Já, fjaran er svo sannarelga frábær staður til að stunda heilsueflingu og njóta samverustunda.
Við hvetjum ykkur til þess að prófa!
Fatnaður
Góður fatnaður skiptir höfuðmáli í gönguferðunum, sérstaklega að vetri til og viljum við nota tækifærið og mæla með að börnin klæðist þunnri ull næst líkamanum, svo flís/ull og þar næst kuldagalla eða utanyfir buxum og jakka. Gott er að hafa ullarháls um hálsinn, góða húfu og vettlinga. Ullin helst álíka heit hvort sem hún er þurr eða blaut, en þegar bómullarfatnaður blotnar þarf líkaminn að nota orku til að hita hana og þurrka.
Lykilatriði er að hafa klæðnað eftir veðri og muna að hægt er að njóta útiveru sama hvernig veðrið er svo lengi sem klæðnaðurinn er réttur.