Mánudaginn 22. ágúst fór starfsfólk Strandheima á skyndihjálparnámskeið þar sem farið var yfir öll helstu atriði skyndihjálpar, en starfsfólki leikskóla er skylt að sækja slík námskeið á tveggja ára fresti.
Á námskeiðinu fengum við ýmsar ábendingar sem okkur langar að deila með ykkur:
- Rauði kross Íslands hefur látið útbúa sérstakt Skyndihjálpar-app og hvetjum við ykkur eindregið til þess að kynna ykkur það nánar inn á heimasíðu þeirra.
- Rauði krossinn hefur einnig gefið út Skyndihjálpar-lag ætlað stórum sem smáum og er hægt að sjá myndband við lagið hér.
- Í samstarfi við Stundina okkar framleiddi Rauði krossinn einnig barnaefni sem kallast Hjálpfús og fjallar m.a. um mikilvægi vináttunnar, nauðsyn þess að setja sig í spor annarra, gefa af tíma sínum og kunna að hjálpa öðrum ef eitthvað bjátar á. Hægt er að nálgast þættina um Hjálpfús á youtube-síðu Rauða krossins.
- Góð leið til þess að kenna börnum símanúmer neyðarlínunnar, 1-1-2, er að nota vísifingur til að telja munn og nef – og bæta svo löngutöng við til að telja augun samtímis (líkt og peace-merki). Um leið og fingur færist frá munni til nefs og svo til augna er númerið sagt upphátt: 1 (munnur) – 1 (nef) – 2 (augu). Gott er að veita börnum vitneskju um að þau geti hringt í 1-1-2 ef þau eða einhver nálægt þeim er í hættu og að þá fái þau viðeigandi aðstoð; frá læknum, lögreglu eða slökkviliði.
Gangi ykkur vel! 🙂